Önnur umferð á 20 ára Afmælismóti skákfélagsins Goðans fór fram í dag og hófust leikar klukkan 10:00 í morgun. Efstu menn misstu niður jafntefli en þó nokkrir skákmenn hafa enn fullt hús.
Franska vörnin var tefld á þremur efstu borðunum en gaf misvel! Simon Williams beitti franskri gegn Símoni Þórhallssyni og náði á köflum örlítið betra endatafli en aldrei nóg til að valda Símoni vandræðum.
Franska vörnin hefði átt að gefa hjá Hilmi Frey sem fórnaði skiptamun eins og Jón Kristinn en skiptamunsfórn Hilmis hefði átt gefa betur en hún gerði. Hilmir fann ekki skörpustu framhöldin, lagði of mikið á stöðuna og var komið með gjörtapað tafl á kafla. Vandvirkni vantaði á ögurstundu en Gauti gerðist sekur um alltof mikla fljótfærni með 32.Dh4 og leyfði þráskák of auðveldlega hróki yfir.
Björn bróðir Braga var stálheppinn gegn Arnari Milutin. Björn gerðist sekur um yfirsjón í útreikningum og sókn hans fyrir peð var einfaldlega ekki til staðar. Björn neyddist til að halda áfram að henda eldiviði á bálið í formi svartra peða og á endanum gekk það upp eftir smá barning. Engin meiðsli urðu á pennum þótt ærið tilefni hefði mögulega verið til!
Lítið var um óvænt úrslit en fyrsta byltan sem stigahærri keppandi fékk var í skák Sigurðar Eiríkssonar gegn Hilmari Frey Birgissyni. Greinilegt að Hilmar tekur tvífarahlutverkið alvarlega, tefldi hvasst með drekaafbrigðinu og fórnaði skemmtilega á b2 skiptamun til að opna línur.